Bankahrun og afsagnir

Á síðustu 2 dögum september og á fyrstu 9 dögum október hrundi u.þ.b. 85% af bankakerfi landsins.  Megin ábyrgðina á því bera stjórnir, bankastjórar og aðal eigendur Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.  Sjálfhætt var hjá þessum mönnum þegar bankarnir fóru í þrot, en nauðsynlegt er að rannsaka ítarlega verk þeirra síðustu misserin, upplýsa um þau og draga þá til ábyrgðar.  Meðábyrgir eru bankastjórar Seðlabankans Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins Jónas Fr. Jónsson og stjórn þess Jón Sigurðsson, formaður, Ingimundur Friðriksson og þriðji maður sem ég veit ekki hver er. Þessum eftirlitsstofnunum bar að fylgjast með starfsemi bankanna og grípa inn í ef ástæður voru til.  Ýmis úrræði voru þeim heimil eins og kemur fram í eftirfarandi ákvæðum úr lögum um stofnanirnar.  Þeim bar að vinna náið saman lögum samkvæmt og virðist það hafa verið að forminu til, því einn Seðlabankastjórinn er í stjórn Fjármálaeftirlitsins og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins er í bankaráði Seðlabankans, varaformaður meira að segja.  Auk þessara manna eru að mínu mati ábyrgir Geir H Haarde, forsætisráðherra, sem fer með málefni Seðlabankans og Björgvin G Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sem fer með málefni Fjármálaeftirlitsins og viðskiptabankanna.  Krafa mín er sú að allir þessir nafngreindu menn, auk huldumannsins sem enginn fréttamaður hefur talað við, segi af sér embættum nú þegar.

Úr lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands.

Yfirstjórn Seðlabanka Íslands er í höndum forsætisráðherra og bankaráðs svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.

Stjórn bankans er að öðru leyti í höndum bankastjórnar. Í bankastjórn Seðlabanka Íslands sitja þrír bankastjórar og er einn þeirra formaður bankastjórnar. Bankastjórn ber ábyrgð á rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum. Formaður bankastjórnar Seðlabankans kallar bankastjórn saman til fundar. Ávallt skal boðað til fundar þegar annar hinna bankastjóranna óskar. Fundurinn er ályktunarhæfur ef meiri hluti bankastjórnar situr hann. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns bankastjórnar. Undirskrift tveggja bankastjóra Seðlabankans þarf til þess að skuldbinda bankann.

Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Bankastjórn skal jafnan upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur.

Meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu verðlagi. Með samþykki forsætisráðherra er Seðlabankanum heimilt að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu. Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn meginmarkmiði sínu skv. 1. mgr. Seðlabanki Íslands skal sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd. Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana sem þeim ber ætíð að hafa yfir að ráða í þeim tilgangi að mæta fyrirsjáanlegum og hugsanlegum greiðsluskuldbindingum á tilteknu tímabili, sbr. 4. gr. Í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lánastofnana. Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum. Honum er einnig heimilt að ákveða að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöfunarfjár við hverja stofnun skuli bundinn á reikningi í bankanum, enda fari heildarfjárhæð sem viðkomandi stofnun er skylt að eiga í Seðlabankanum ekki fram úr því hámarki sem sett er skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar. Enn fremur er Seðlabankanum heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum. Seðlabanki Íslands skal veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar sem bankinn býr yfir og nýtast kunna í starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Úr lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun og lýtur sérstakri stjórn. Stofnunin heyrir undir viðskiptaráðherra.

 Með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins fer þriggja manna stjórn sem viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður eftir tilnefningu frá Seðlabanka Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins er ráðinn af stjórn stofnunarinnar. Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar.

Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

Eftirlit samkvæmt þessum lögum tekur til starfsemi eftirtalinna aðila:    1. viðskiptabanka og sparisjóða,    2. lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða,    3. rafeyrisfyrirtækja, skv. 1. og 2. gr. laga um rafeyrisfyrirtæki,    4. vátryggingafélaga,    5. félaga og einstaklinga sem stunda vátryggingamiðlun,    6. fyrirtækja í verðbréfaþjónustu,    7. verðbréfasjóða og rekstrarfélaga verðbréfasjóða,    8. kauphalla, skipulagðra verðbréfamarkaða og markaðstorga fjármálagerninga (MTF),    9. verðbréfamiðstöðva,    10. lífeyrissjóða,    11. aðila, annarra en greinir í 1. tölul., sem heimild hafa lögum samkvæmt til þess að taka við innlánum.

Fjármálaeftirlitið skal athuga rekstur eftirlitsskyldra aðila svo oft sem þurfa þykir. Þeim er skylt að veita Fjármálaeftirlitinu aðgang að öllu bókhaldi sínu, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum í vörslu þeirra er varða starfsemina sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegan. Vegna starfsemi sinnar getur Fjármálaeftirlitið gert vettvangskannanir eða óskað upplýsinga á þann hátt og svo oft sem það telur þörf á. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins skal eiga reglulega samráðsfundi með fulltrúum Seðlabankans. Þar skal hann veita upplýsingar um starfsemi Fjármálaeftirlitsins sem nauðsynlegar eru starfsemi Seðlabankans. Fjármálaeftirlitið skal veita Seðlabankanum allar upplýsingar sem stofnunin býr yfir og nýtast í starfsemi bankans. Komi í ljós grunsemdir um bresti í fjárhagslegri stöðu eftirlitsskyldra aðila, sem eru í viðskiptum við Seðlabankann, skal Fjármálaeftirlitið tafarlaust gera bankastjórn Seðlabankans viðvart. Fjármálaeftirlitið skal gefa viðskiptaráðherra skýrslu um starfsemi sína fyrir 15. september ár hvert. Í framhaldi af því gerir viðskiptaráðherra Alþingi grein fyrir starfsemi Fjármálaeftirlitsins.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband